Nú á dögunum undirritaði GA samstarfssamning við GLFR en margir kylfingar hjá okkur þekkja forritið sem hefur aðstoðað við lengdir á vellinum og virkað sem eins konar GPS úr fyrir kylfinga undanfarin ár.
Miklar betrumbætur hafa átt sér stað á appinu undanfarin ár og hafa þeir verið að kynna það sem nýtt klúbbapp fyrir klúbba víðs vegar um heim. Því hvetjum við félagsmenn okkar til að sækja sér appið og innskrá sig þar og þá munu þeir fá klúbbviðmótið af appinu.
Við hjá GA ætlum að vera virkir að nota það í sumar fyrir fréttir af starfi, tilkynningar ef eitthvað þarf að vita og fleira. Forritið býður upp á mikla möguleika fyrir golfklúbba til að miðla upplýsingum til kylfinga á sem einfaldastan og þægilegasta mátan. Þarna getum við sett inn fréttir og kylfingar okkar fá tilkynningu beint í símann þegar sú frétt kemur, það getur verið gott að fá tilkynningarnar strax ef um ræðir til að mynda tímabundna lokun á einhverjum holum, viðgerðir eða eitthvað sem fólk þarf að vita áður en farið er af stað.
Forritið er aðgengilegt bæði í android og apple símum og viljum við hvetja félagsmenn að nálgast það sem fyrst þar sem fréttir og tilkynningar munu koma þangað á næstu dögum.