Á meðan tímabilið okkar hér heima er að nálgast inniaðstöðuna þá eru Tumi og Andrea að standa sig vel með skólunum sínum í USA.
Liðið hans Tuma byrjaði á því að sigra fyrsta mót tímabilsins og þar lék Tumi á 73-70-70 höggum og endaði í 22.sæti. Tumi var að klára annað mótið sitt á tímabilinu 24-26 september með Western Carolina á JT Poston Invitational og endaði liðið hans í 8.sæti af 14 liðum, Tumi lék afar jafnt golf á 73-71-72 höggum og endaði í 35. sæti af 84 keppendum. Tumi er því að byrja tímabilið vel og ætlar sér að eiga gott tímabil í vetur miðað við samtölin sem hann hefur átt við þjálfara GA.
Andrea er á sínu fyrsta ári úti í USA og spilar fyrir Elon háskólann. Liðið hennar endaði í 7.sæti af 20 liðum í fyrsta mótinu og lék Andrea á 75-80-79 höggum og var ekki sátt þegar hún heyrði í Heiðari þar sem hún hafði spilað mjög vel í úrtökunni fyrir liðið með þrem hringjum á og við 70 höggin.
Í öðru mótinu hafnaði liðið hennar í 2.sæti af 8 liðum og Andrea lék fyrstu tvo hringina virkilega vel og var í öðru sæti fyrir lokahringinn. Því miður náði hún ekki að fylgja eftir góðri byrjun í mótinu og endaði í 12.sæti, hún lék hringina þrjá á 70-73-83. Samt sem áður geggjað hjá henni að komast í lokahollið og fá góða reynslu fyrir restina af tímabilinu.
Hún var eðlilega ekki sátt við lokahringinn hjá sér og sagðist ekki hafa hitt nógu margar brautir af teig til þess að skora þar sem völlurinn var blautur og röffið þungt en var samt ánægð með að hafa byrjað svona vel og verið í toppbaráttunni framan af mótinu.
Það stefnir því í hörkutímabil hjá GA fólkinu okkar í USA og við munum flytja ykkur fréttir af þeim reglulega yfir veturinn.