Öldungasveitir GA 50+ kepptu um helgina

Vætusamt var það á Húsavík
Vætusamt var það á Húsavík

Um helgina tóku öldungasveitir GA 50+ karla og kvenna báðar þátt í Íslandsmóti golfklúbba, karlarnir í 1. deild og konurnar í 2. deild.

Kvennasveitin hélt austur fyrir fjall og keppti á Húsavík en sveit GA skipuðu þær: Birgitta Guðjónsdóttir, Birgitta Guðmundsdóttir, Eygló Birgisdóttir, Fanný Bjarnadóttir, Guðlaug María Óskarsdóttir og Guðrún Steinsdóttir. Eins og margir vita var veðrið ekki með besta móti á Húsavík þessa dagana og fór það svo að einungis var hægt að klára annan höggleikshringinn af tveimur á fimmtudeginum. GA konurnar voru þá í 2. sæti, þremur höggum frá GV og átti síðan eftir að spila holukeppni á föstudegi og laugardegi en fór það svo að mótið var blásið af vegna veðurs og var Katlavöllur orðinn óleikfær vegna vætu. Gríðarlega svekkjandi fyrir okkar konur að ná ekki að spila meira á þessu móti en þær spiluðu fínt golf við krefjandi aðstæður á Katlavelli og hefðu mögulega gert sterka atlögu að því að fara upp um deild ef hægt hefði verið að spila meira. 

Karlarnir okkar spiluðu í efstu deild í Þorlákshöfn og var sveit GA þannig skipuð: Arnsteinn Ingi Jóhannesson, Eiður Stefánsson, Guðmundur Sigurjónsson, Jón Birgir Guðmundsson, Jón Þór Gunnarsson, Konráð Vestmann Þorsteinsson, Ólafur Auðunn Gylfason og Valmar Valjaots. Þeir spiluðu þrjá leiki í riðlinum þar sem þeir töpuðu á móti GS og Golfklúbbnum Esju og gerðu jafntefli við Golfklúbbinn Keili. Þeir enduðu þá í keppni um 5.-8. sætið þar sem þeir töpuðu á móti Golfklúbbnum Setberg og spiluðu hreinan úrslitaleik við Golfklúbbinn Odd um að halda sér upp í efstu deild í síðasta leik mótsins. Karlarnir sýndu sitt rétta andlit í þeim leik og sigruðu 3,5-1,5 en Óli Gylfa vann sinn leik 5/4 og Guðmundur 1/0 og voru aðrir leikir jafnir. Þeir spila því áfram í efstu deild á næsta ári.