Rauða liðið sigraði í Bændaglímu GA

Baddi Guðmunds og hans menn í rauða liðinu reffilegir með bikarinn!
Baddi Guðmunds og hans menn í rauða liðinu reffilegir með bikarinn!

Það var glatt á hjalla í blíðskaparveðri á Jaðarsvelli á laugardaginn þegar Bændaglíma GA fór fram. 

Benedikt Guðmundsson var bóndi rauða liðsins og Jón Heiðar bóndi bláa liðsins. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar bláa liðsins fyrir hring þá áttu þeir ekki erindi sem erfiði og fór það svo að rauða liðið sigraði 16,5-11,5 og fór þar mikinn Hreiðar Gíslason liðsmaður rauða liðsins sem sigraði báða leiki sína örugglega. 

Jaðar Bistro var með hamborgaraveislu eftir hring og voru menn mjög kátir með daginn. Veðrið var með besta móti svona í lok september og var gleði á meðal þátttakenda með mótið þrátt fyrir að við hefðum að sjálfsögðu viljað hafa fleiri. 

Bændaglíman hefur verið sett á laugardaginn 6. september á næsta ári og biðjum við fólk um að taka daginn frá og mæta vel í mótið. 

Eins og venjan er undanfarin ár tilkynntu bændur liðanna um hverjir myndu taka við af þeim og var vel við hæfi að Baddi valdi Hreiðar, Æda, Gísla sem bónda rauða liðsins og var Siguróli Magni eldri bróðir Jóns Heiðars valinn bóndi fyrir bláa liðið á næsta ári.

Við þökkum keppendur kærlega fyrir komuna og vonum að þeir hafi haft gaman af.