Í gær var undirritaður sérstakur viðauki við uppbyggingar- og framkvæmdasamning Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar frá 2007.
Viðaukinn felur í sér fjárveitingu til GA svo unnt verði að ljúka framkvæmdum og uppbyggingu að Jaðri sem unnið hefur verið að á síðustu árum og stefnt er að því að verði lokið árið 2018.
GA hefur nú þegar hafist handa við uppbyggingu á sex holu æfingavelli sem tekinn verður í notkun sumarið 2016. Á haustmánuðum verður byrjað á byggingu nýs æfingaskýlis sem staðsett verður á Jaðri eins og hefur komið fram hér á síðunni. Sjá frétt með því að smella hér. Einnig er fjármagn til þess að klára þau verkefni sem útaf standa á vellinum sjálfum, eins og t.d. að klára uppbyggingu á teigum, glompum og ýmsu öðru.
Þegar að þessari uppbyggingu verður lokið innan fárra ára er það alveg ljóst að golfsvæðið á Jaðri er einstakt og með því besta sem gerist hér á landi og þótt víðar væri leitað. 18 holu golfvöllur glæsilegur golfvöllur, 6 holu æfingavöllur þar sem byrjendur jafnt sem lengra komnir geta notið þess að spila golf, auk æfingasvæðis af bestu gerð.
Jaðar er í dag einn mest spilaði golfvöllur landsins og sá golfvöllur fyrir utan stór Reykjavíkursvæðið sem er mest spilaðar. Sumarið 2014 voru skráðir hringir á Jaðri rétt um 25 þúsund og af þeim voru tæplega 10 þúsund kylfingar frá öðrum klúbbum en GA. Það má því með sanni segja að Jaðar sé vinsæll viðkomustaður golfþyrstra Íslendinga og eigum við von á því að enn fleiri heimsæki Jaðar á komandi árum.
Með tilkomu 6 holu æfingavallar munu opnast ný og betri tækifæri, fyrir börn, unglinga og nýliða til að prófa sig áfram í golfíþróttinni á velli sem hentar þeim. Í dag er tæplega 700 félagar í GA og sumarið 2014 voru rétt um 180 krakkar sem æfðu/spiluðu golf á Jaðri. Vonandi munu enn fleiri leggja leið sína á Jaðar á komandi árum með bættri aðstöðu.
Það er ómetanlegt að hafa eins öflugan og flottan stuðning og GA fær frá Akureyrarbæ. Þessi stuðningur gerir okkur kleift að byggja upp einstakt golfsvæði og viðhalda því í eins góðum gæðum og raun ber vitni.
Þökkum við bæjaryfirvöldum kærlega fyrir veittan stuðning og hlökkum til að taka á móti sem flestum kylfingum á Jaðri á komandi árum.
Meðfylgjandi mynd var tekin í gær á skrifstofu bæjarstjóra þegar Sigmundur Ófeigsson formaður GA og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstóri höfðu undirritað viðaukann.