Ótrúleg íþrótt - þetta golf!! Hreint ótrúlegur golfhringur sem endar með holu í höggi á 18.
Skúli lýsir svo eftirminnilegum golfhring sem þeir félagar spiluðu í gær hér á Jaðarsvelli.
Í gær fórum við í golf í blíðskapar haustveðri - 9° hita, logni og sól ...... og vorum “fimm” í hollinu, sem ekki er til eftirbreytni, en þar sem við vorum nánast einir á vellinum, kom það ekki að sök. Í hollinu voru, fyrstan skal frægan telja, Marra (Hilmar Gíslason) - Dodda (Þórarinn B. Jónsson) - Halla ( Harald Bjarnason) - Haddo (Hallgrím Arason) og undirritaðu, Skúli Ág.
Allt gekk þetta stóráfallalaust fyrir sig fyrstu fimm holurnar - á þeirri sjöttu, sippaði Doddi í fyrir fugli - á þeirri sjöundu, setti Marri þriðja höggið beint í holu, fyrir fugli, af 80 metra færi - á tíundu holu setti Doddi niður 25 metra pútt, fyrir fugli - og á tólftu holu sippaði Doddi aftur í fyrir fugli, nú úr slæmri legu í hólnum fræga ..... Skúli setti síðan niður pútt á þeirri fjórtándu fyrir fugli ..... og fór síðan, holu í höggi, á þeirri átjándu - með 8 járni - holan var í dag 118m. að lengd - hár bolti, allan tímann beint á flagg - kom niður ca 1,5 – 2,0 m. frá stönginni, og lá í holu, upp við stöngina þegar við komum að flötinni - hreyfði varlega við stönginni og lét boltann (Titelst) falla, svo allt væri nú löglegt.....
Þetta var alveg ótrúlegur dagur - nú er hver dagur nýttur til golfleiks þar sem síðasti golfdagurinn gæti hafa verið í "dag" þar sem langt er liðið á haustið - haustið er búið að vera mjög gott á JAÐARSVELLI.
Þetta er í 3. sinn sem Skúli fer holu í höggi. Hér á Jaðarsvelli fyrst á 6. braut og í 2. sinn hjá Golfklúbbnum Oddi.
Við óskum Skúla til hamingju með draumahöggið.
Þetta er þá í 5. sinn sem farin er hola í höggi að Jaðri í sumar