254 milljónir til uppbyggingar á næstu árum
Skrifað var undir uppbyggingarsamning milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar nú í hádeginu.
Samningurinn tekur til nauðsynlegra breytinga á golfvelli GA vegna lagningar Miðhúsabrautar, almennrar endurnýjunar á golfvellinum sjálfum, uppbyggingu nýs æfingasvæðis og 9 holu æfingavallar. Einnig tekur samningurinn til þeirra mögulegu samlegðaráhrifa sem myndast við framkvæmdir beggja aðila og er þá einkum horft til framkvæmda við Miðhúsabraut, Naustahverfi og golfvöllinn sjálfan.
Framlag bæjarins á árunum 2008-2012 nemur 229 milljónum króna.
Markmið samningsins:
Það er skilningur aðila að í framkvæmdir þessar sé ráðist til eflingar golfíþróttinni í bænum og að sem flestum gefist kostur á þátttöku. Sérstaklega eru aðilar áhugasamir um að efla áhuga æsku bæjarins á golfíþróttinni og að GA standi fyrir námskeiðum barna- og unglinga í samvinnu við bæjarfélagið hér eftir sem hingað til. Einnig er horft til að breytingar hvetji til aukinna heimsókna ferðamanna til Akureyrar til að stunda golfíþróttina.
Framkvæmdaáætlun samningsins miðar sérstaklega að því að aðalvöllur GA verði endurgerður fyrir sumarið 2010 en þá er fyrirhugað að Íslandsmótið í höggleik fari fram á vellinum. Sameiginlegt markmið samningsaðila er að völlurinn verði þá kominn í raðir allra bestu golfvalla landsins sem og að vera vel tækjum búinn.
Árin 2011 og 2012 verður svo ráðist í uppbyggingu á glæsilegu æfingasvæði sem mun bæta aðstöðu kylfinga til muna sem og að byggja upp 9 holu æfingavöll. Þessar aðgerðir munu gera GA kleift að taka við fleiri nýliðum bæði til kennslu og inn á völl sem hentar betur þeim sem styttra eru komnir í íþóttinni.