Staða mála á Jaðri

Ágætu félagar.

 Hér að neðan er smá pistill frá Steindóri vallarstjóra þar sem hann fer aðeins yfir stöðuna á golfvellinum okkar.

 

Þann 26. nóv var völlurinn orðinn auður að langmestu leyti og var þunnur klaki brotinn af nokkrum flötum. Mánaðarmótin nóv-des voru því allar

flatir lausar við snjó og klaka.

Klaki brotinn í desember

Um jól og áramót byrjaði að myndast klaki á flötum.  Um miðjan janúar var klakinn ekki mikill en jókst svo verulega seinni part janúar vegna óhagstæðs veðurfars.  Eins og staðan er í dag 4.2.2014 má skipta flötunum til helminga, flatir með 1-2 cm klaka og svo 2-8 cm.

Á þeim flötum sem klakinn er orðinn þykkur er farin að finnast lykt sem kemur þegar svörðurinn nær ekki að anda og myndast koltvísýringur, ediksýra ofl. sem gefur þessa sterku lykt.  Síðustu vikuna höfum við verið að blása snjó af þremur af þessum flötum og gata klakann. Þetta hefur gengið vel og gerir það að verkum að flatirnar ná að anda og flest bendir til að ástandið sé talsvert betra en fyrir ári, þó við hefðum viljað ná fram í janúar með klakalausar flatir.

Snjór fjarlægður af nokkrum flötum 

Í dag eru flatirnar að hefja sína 6 viku undir klaka. Tekin voru sýni þann 30.01.2014 (í 5 viku undir klaka) úr tvemur flötum sem eru með hvað mestan klaka og sýna þau þó nokkuð lífsmark.  Hafa ber í huga að sá klaki sem er nú yfir flötunum er "góður" klaki ef svo má segja. Það er mikið loft í honum og hann er ekki samfrosinn grasinu. 

Klaki brotinn og lofti hleypt ofan í grassvörðinn 

Allt er þetta þó bara viðmið og vonum við það besta og gerum allt sem í okkar valdi til að skaðinn verði sem minnstur.  Farið verður í það að brjóta klakann af flötunum þegar réttar aðstæður í veðri bjóðast.