Nú er alltaf að styttast í vorið og við teljum dagana þangað til hægt verður að spila golf úti í góðu veðri. Starfsmenn vallarins hafa fylgst með vellinum í vetur og þá sérstaklega flötunum. Þá er aðallega verið að athuga hvort klaki sé yfir flötunum og ef hann er til staðar þá þarf að mæla hversu þykkur hann er og hve lengi hann hefur verið.
Frá því fyrir jól höfum við reynt að nýta öll þau tækifæri sem völ er á að losna við snjó og klaka þar sem þess þarf. Við reynum að nýta hlákuna sem hjálpartæki ef það er hægt. Í janúar kom svo góður tími þar sem við náðum að nota hlákuna sem kom til þess að losna við klaka og snjó af flötunum okkar. Þá er snjónum blásið af flötunum fyrst og svo er athugað hve klakinn er þykkur. Ef hann er nægilega þykkur (2cm eða meira) er farið yfir klakann með Procore gataranum okkar, sem við notum á sumrin til að gata flatirnar, og klakinn er brotinn með honum. Þannig náum við að þynna klakann svo sér hlákan um að bræða restina af. Ástæðan fyrir því að við brjótum ekki klaka sem er undir 2cm á þykkt er sú að hann nær ekki að brotna almennilega og við förum í gegn og götum í flötina sem við viljum reyna að sleppa við eftir fremsta megni. Þegar búið er að brjóta klakann er hann skafinn af flötinni og þá nær það þunna lag sem eftir er að bráðna og þannig losum við okkur við klakann af flötunum.
Ástæðan fyrir því að við viljum losna við klakann er sú að grasið fær ekki nægt súrefni undir klakanum og því geta komið kalblettir ef hann er ekki brotinn. Núna um miðjan janúar náðum við að losna við nánast allan klaka af öllum flötum sem er mikilvægt fyrir okkur öll svo við getum spilað skemmtilegt golf á góðum velli í sumar.
Gunnar Ernir, aðstoðarvallarstjóri
*myndir teknar þann 14. janúar 2018