GA sveitin endurheimti sæti sitt í 1. deild. Konurnar féllu í 2. deild.
Um nýliðna helgi tóku sveitir GA þátt í sveitakeppni GSÍ, karlasveit Golfklúbbs Akureyrar spilaði í 2 deild og bar þar sigur úr býtum. Keppnin fór fram á Kiðjabergsvelli og setti mikil rigning strik í reikninginn. Sveitin byrjaði illa og tapaði sínum fyrsta leik gegn sveit Golfklúbbs Bakkakots. Eftir það gerðu þeir sér lítið fyrir og unnu alla sína leiki og tryggðu sér efsta sætið í deildinni og með því sæti í efstu deild á næsta ári. Liðið vann Golfklúbb Ólafsfjarðar, Golfklúbb Kiðjabergs tvisvar og svo Golfklúbbinn Leynir. Í sveit GA voru Friðrik Gunnarsson, Samúel Gunnarsson, Sigurður Skúli Eyjólfsson, Örvar Samúelsson, Ómar Halldórsson, Birgir Haraldsson, Ólafur Auðunn Gylfason og Jason Wright, Örn Viðar Arnarsson var liðsstjóri.
Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan árangur.
Kvennasveitin spilaði í 1. deild hjá GKG og féllu þær í 2. deild. Sveitina skipuðu þær Halla Berglind Arnarsdóttir, Sunna Sævarsdóttir, Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, Stefanía Elsa Jónsdóttir, Þórunn Anna Haraldsdóttir, Unnur Hallsdóttir, Petrea Jónasdóttir og Áslaug Þóra Jónsdóttir, liðstjóri Guðlaug María Óskarsdóttir.