Undirritun samstarfssamninga um mótið 2008

Arctic Open golfmótið verður haldið á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 26. - 28. júní nk.Arctic Open er alþjóðlegt golfmót sem hefur verið haldið frá árinu 1986 og hafa umþrjú þúsund innlendir og erlendir gestir látið drauminn rætast og tekið þátt í mótinu.Keppendur eru sammála um að það sé einstök upplifun að spila golf í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil svo nærri heimskautsbaugi. Stemmningin á þessari golfhátíð sé engri lík. Landsbankinn er aðal samstarfsaðili G.A. um framkvæmd mótsins og mun bankinn bjóða starfsmönnum og viðskiptavinum sínum til mótsins.  Einnig kemur bankinn að markaðssetningu mótsins sem gerir mögulegt að kynna það vel og gera það veglegt og áhugavert í alla staði. 

190 þátttakendur taka þátt í mótinu í ár og komast færri að en vilja.  Verðlaun verða í boði frá Golfbúðinni ehf. Hafnarfirði, Nike umboðinu, NTC verslununum og heild-verslun Rolf Johansen auk þess sem allir þátttakendur fá sérstaka þátttökugjöf sem að þessu sinni er glæsilegur Nike golfjakki.  

Mótið hefst á fimmtudegi með glæsilegri setningarathöfn þar sem boðið er upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum.  Sérstök áhersla er lögð á að kynna afurðir frá Eyjafjarðarsvæðinu í samstarfi við samtökin Matur úr héraði. Fyrsti ráshópur er ræstur kl. 16 á fimmtudag og eru þá leiknar 18 holur og frá kl. 16 á föstudag eru leiknar aðrar 18 holur fram á rauða nótt. Leikið er eftir Stableford punktakerfi með og án forgjafar auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir besta árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Samhliða leik er spiluð liðakeppni. Fjórir eru saman í liði og valið er í liðin af handahófi. 

Lokahóf Arctic Open á laugardagskvöld er sannkölluð stórveisla þar sem verðlaunin eru afhent og boðið upp á skemmtiatriði. Í lokahófinu mun Friðrik V. matreiðslu-meistari bjóða veislumat unninn úr hráefnum frá sjávarútvegs- og matvæla-fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu.  Friðrik V. er einn af fremstu matreiðslumönnum landsins og munu þeir réttir sem hann ætlar að bjóða í lokahófinu koma skemmtilega á óvart. 

Á Arctic open mótinu í fyrra var í fyrsta skipti efnt til fjáröflunarleiks á 18. holu vallarins og var tilgangurinn að safna fé til styrktar íþróttastarfi fatlaðra.  Fyrirtæki á Akureyri og þátttakendur í mótinu lögðu samtals fram á aðra milljón króna sem afhent var Klökunum, útivistarhópi sem vinnur að aukinni íþróttaiðkun fatlaðra. Samskonar leikur verður á mótinu í ár og mun það fé sem safnast renna óskipt til Íþróttafélagsins Eikar á Akureyri en tilgangur þess er að efla íþróttaiðkun og útivist þroskaheftra. Það er von mótshaldara að jafn vel takist til og í fyrra og að hægt verði að afhenda Íþróttaféaginu Eik umtalsverða upphæð til í lokahófi mótsins. 

Jaðarsvöllur kom mjög vel undan vetri og stefnir í að hann verði mjög góður þegar Arctic Open fer fram.  Miklar framkvæmdir standa nú yfir á vellinum og verður stór hluti þeirra endurbóta sem staðið hafa yfir frá því sl. sumar tilbúnar fyrir mótið. Þær stórhuga endurbætur og framkvæmdir sem standa munu næstu þrjú ár gerbreyta golfvellinum að Jaðri og gera hann að einum besta golfvelli á landinu. Þær munu einnig opna nýja og stórkostlega möguleika fyrir Golfklúbbinn til að markaðssetja Arctic Open mótið og aðrar uppákomur sem hingað laða kylfinga, jafn innlenda sem erlenda.

 

Á myndinni eru Jón Birgir Guðmundsson og G. Ómar Pétursson frá Arctic Open ásamt fulltrúum frá Landsbankanum, Saga Capital og Flugfélagi Íslands