Þegar að framkvæmdasamningur GA við Akureyrarbæ var undirritaður fyrir nokkrum árum síðan voru menn stórhuga og höfðu miklar væntingar um uppbyggingu svæðisins á Jaðri. Nú rúmum 10 árum síðar erum við farin að sjá fyrir endan á þessum framkvæmdum. GA og Akureyrarbær hafa náð samkomulagi og fjárveiting frá Akureyrarbæ trygg og því hægt að ljúka við þá uppbyggingu sem farið var af stað með.
Síðastliðið haust var hafist handa við sex holu æfingavöllinn og verður hann kláraður í sumar og vonandi hægt að opna hann um mitt sumar 2016. Einnig er farin af stað vinna vegna uppbyggingar á nýju æfingasvæði með yfirbyggðu æfingaskýli. Það er GA félaginn Steinmar H. Rögnvaldsson sem hefur séð um hönnun og teikningar á skýlinu og er óhætt að fullyrða að þetta lofi mjög góðu. Skýlið verður staðsett við vestur hlið fjóssins og fara núverandi 8. og 9. braut undir æfingasvæðið.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þríviddar myndir af fyrirhuguðu skýli, ásamt yfirlitsmynd. Þetta er ekki endanlega útgáfa en á væntanlega ekki eftir að breytast mikið. Til að byrja með verða ekki hurðar á öllum básunum og efri hæðin verður ekki fullkláruð.
Þarna verða 15 básar, þar af tveir í lokuðu kennslurými. Hægt verður að bæta við allt að 15 í viðbót ofan á skýlinu eins og sést á meðfylgjandi myndum. Í kjallara hússins verða svo bílastæði fyrir uppundir 30 golfbíla/golfhjól ásamt klósettaðstöðu og ca 160 skápum fyrir golfsett.
Áætlað er að þetta opni snemma sumars 2016 og verður þá aðstaða til golfiðkunar á Jaðri eins og best verður á kosið.
Smellið hér til að sjá teikningu af fyrirhuguðu æfingasvæði GA á Jaðri.
Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um nafn á nýja æfingasvæðinu okkar.
Tillögum skal skila til Ágústar á póstfangið agust@gagolf.is eða á skrifstofu GA í Golfhöllinni.
Frestur til að skila inn tillögum rennur út sunnudaginn 22. mars. Í boði fyrri sigurtillögunina er 20 þúsund króna úttekt í golfbúð GA á Jaðri.