Ágætu félagar í GA.
Okkur langar að fara aðeins yfir stöðu mála á Jaðri í dag eins og hún horfir við okkur.
Nú eru rétt rúmar fjórar vikur síðan völlurinn opnaði og erum við bara nokkuð ánægðir með stöðu mála eins og hún er í dag. Auðvitað er ýmislegt sem betur má fara en við vinnum stöðugt að því að bæta gæði vallarins og teljum við okkur vera á réttri leið. Það hefur verið mikil umferð á vellinum okkar frá opnun, skráðir hringir fyrstu fjórar vikurnar eru rétt rúmlega fjögur þúsund og er það flott.
Völlurinn kom bara nokkuð vel undan vetri, nokkur ljót svæði voru á brautum en þau eru við það að hverfa, teigar komu flestir vel undan og flatirnar komu bara vel undan vetri miðað við það sem á undan er gengið. Erum við þess full vissir að sú vinna sem farið var í í vetur á flötunum sé að skila árangri og er það vel.
Það er alveg ljóst að vinna golfvallarstarfsmanna hefur breyst mikið undanfarin ár, nú er umönnunn golfvalla orðin þannig að við verðum að horfa til lengri tíma en bara sumarsins í sumar. Það sem við gerum í sumar, í haust og næsta vetur mun klárlega hafa áhrif á það hvernig flatirnar verða næsta sumar. Hér áður fyrr var oftar en ekki bara horft á sumarið sem er að líða og svo var bara slagurinn tekinn aftur að ári. Það er þolinmæðisverk að viðhalda golfvelli og á það sérstaklega við hér á okkar litla Íslandi þar sem sumarið er stutt og vinnan oft lengur að skila sér.
Í vor voru tvær flatir hjá okkur nánast alveg graslausar, flatir sjö og átjan, nú er átjánda nánast alveg lokuð og sjöunda á ekki langt í land. Fjórtán og sextán sem voru ekkert sérstaklega góðar í vor eiga líka mjög stutt í land. Við sáðum rýgresi í þessar flatir og hefur það skilað frábærum árangri, staðan er hins vegar þannig að rýgresið er ekki fjölært og því þurfum við að koma túnvíngli í þær. Þær flatir sem við erum ekki alveg nógu ánægðir með nú í dag eru flatir sex og ellefu, sáð hefur verið aftur í þær, ásamt öðrum flötum og ef veðurspá næstu daga gengur eftir erum við þess fullvissir að mikið muni breytast. Einnig hefur verið unnið í flötum átta og níu, þetta er vonandi síðasta sumarið þeirra þannig að við erum að reyna að keyra þær almennilega í gang og höfum engar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur til lengri tíma þar sem að þetta er síðasta árið þeirra í leik.
Það sem er hins vegar að trufla okkur á nokkrum flötum í dag er blessaði varpasveifurinn ( poa annua), það er þetta ekki svo fallega gras sem stendur upp úr og hefur slæm áhrif á púttin okkar. Þetta er það sem við viljum losna við og erum á fullu að vinna í því að losna við hann, það tekur bara tíma. Þegar verið er að sá í flatir þá viltu ekki slá þær of neðarlega, en á móti kemur, að þegar þú ert með varpasveif, þá viltu slá hann neðarlega. Þá kemur að okkar klípu í dag, slá varpasveifinn niður og allir ánægðir og gott að pútta, svo kemur næsta vor og allt dautt. Eða þá að þrjóskast við, slá flatirnar frekar hátt og leyfa nýju grasi, túnvíngli eða rýgresi að koma upp og horfa þannig fram á veginn. Það er slagurinn sem við viljum taka og vonum við að þið sýnið okkur smá þolinmæði í þessari vinnu því hún mun án nokkurs vafa skila okkur betri flötum þegar fram líða stundir. Stefnt er að því að lækka slátt á næstu dögum.
Það er erfitt að landa í kali eins og herjað hefur á okkur hér undanfarin ár, þegar að svoleiðis gerist þá þarf að fara að hugsa hlutina upp á nýtt og þá vinnu sem framkvæmd er á golfvellinum og það gerist ekki alltaf yfir nótt, góðir hlutir gerast hægt og erum við þess fullvissir að staðan eigi bara eftir að verða betri á komandi árum, þó aldrei sé hægt að fullyrða neitt um það, þar sem að baráttan við móðir náttúru getur verið ansi erfið, en við erum á réttri leið.
Við erum með flatir, eins og t.d. á fjórðu, annarri og þrettándu braut sem eru nánast óaðfinnanlegar og sýnir það okkur að allt er hægt og við erum á réttri leið og ætlum við okkur að fjölga þeim flötum sem eru í þessum gæðum og miðast öll okkar vinna að því.
Það sem þið kylfingar góðir getið gert til að hjálpa okkur er að ganga vel um flatirnar, sem og allan völlinn. Það er mikilvægt að gera alltaf strax við boltaför þegar þau myndast á flötum, þegar ekki er gert strax við boltafar skilur það eftir sig sár og það gras sem er hvað líklegast til að fylla í það sár er varpasveifurinn sem við erum að vinna að hörðum höndum að losna við.
Einnig viljum við biðja ykkur um að virða þær girðingar sem settar hafa verið upp til þess að stjórna umferð og skilja við völlinn eins og þið viljið koma að honum.
Það er markmið okkar allra að hafa Jaðar í sem allra besta standi sem völ er á hverju sinni og það gerum við með því að vinna saman. Þetta er einstakur völlur í einstöku landslagi og við eigum að vera stolt af honum.
Með golfkveðju.
Ágúst, Steindór og Daniel.