Þessa helgina er mikið um að vera hjá okkar allra fremstu kylfingum. Sveitakeppnin er farin af stað, en karlarnir spila á Korpunni og konusveitin á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.
Fyrstu leikir hófust í gær, þegar karlasveitin mætti heimamönnum í Mosó. Eftir hörkuleiki stóðu okkar menn uppi sem sigurvegarar, staðan 3-2 í leikjum. Seinni leikur gærdagsins var gegn mjög sterkri sveit GKG sem tapaðist 4-1 þrátt fyrir jafna leiki. Eini sigurleikur okkar manna voru þeir Eyþór Hrafnar og Heiðar Davíð í foresome, en þeir virðast smella mjög vel saman í því skemmtilega fyrirkomulagi.
Kvennasveitin lék fyrsta leik gærdagsins gegn GK, sem léku til úrslita á sveitakeppninni í fyrra. Okkar konur gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þann leik, 3-2. Vel gert! Seinni leikurinn var spilaður gegn frábærri sveit GM, sem tapaðist 4.5-0.5. Þrátt fyrir það eru bæði karla og kvennasveitirnar í flottri stöðu til að koma sér áfram í undanúrslitin. Sigur í fyrsta leik dagsins tryggir þeim í efstu 2 sæti riðilsins.
Eins og fram kom í gær voru 2 afrekskylfingar GA við keppni í Finnlandi. Það eru þeir Skúli Gunnar Ágústsson og Veigar Heiðarsson, en mótið fer fram í Finnlandi á Cooke vellinum í Vierumäki. Skúli kom í hús í gær á 78 höggum(+6) og er í 28 sæti mótsins. Veigar spilaði á 84 höggum(+12) og er í því 48 sæti. Mótið er bæði einstaklingskeppni og liðakeppni, og er íslenski hópurinn í 13. sæti eftir þennan fyrsta dag.
Alltaf gaman að fylgjast með okkar fólki keppa, til að sjá stöðuna getur fólk ýtt á hlekkina hér að neðan.