Það var glatt á hjalla á Jaðri síðdegis í dag þegar um 100 félagsmenn mættu og voru viðstaddir þegar Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi GA, tók fyrstu skóflustunguna af viðbyggingu sem mun rísa vestan við klúbbhúsið og hýsa þar inniaðstöðu GA.
Boðið var upp á kaffi og kruðerí fyrir gesti og eftir að Gísli hafði tekið skóflustunguna á gamla púttgríninu söfnuðust gestir saman inn í skála og Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, greindi frá verkefnum sumarsins og kynnti verkefnið sem framundan er og sýndi frá stórglæsilegum teikningum af húsinu.
Það er ljóst að viðbyggingin mun styrkja alla innviði Golfklúbbs Akureyrar til muna og mátti sjá á þeim sem lögðu leið sína upp á Jaðar að mikil tilhlökkun er fyrir viðbótinni sem mun rísa.
Hér má sjá glærukynninguna sem Steindór kynnti fyrir gestum.
"Þetta er virkilega spennandi uppbygging sem margir munu njóta góðs af. Þetta mun gera aðstöðu okkar enn eftirsóknarverðari og sameina allt okkar starf og þjónustu á einum stað. Það er ótrúlega gaman að vinna að þessu fyrir félaga GA og gesti vallarins, eins langar mig að þakka Akureyrarbæ fyrir góðann samning og frábært samstarf. Þessi samningur ber hag beggja aðila og það er alltaf frábært þegar þannig tekst til" Steindór Kr. Ragnarsson
GA og Akureyrarbær gera með sér samning um að sveitarfélagið styrki byggingu viðbyggingar með árlegu framlagi árin 2024 til og með 2028 en um er að ræða 5 verðtryggðar greiðslur upp á 36 milljónir króna, eða samtals 180 milljónir króna að núvirði. GA er framkvæmdaraðili verksins og mun klúbburinn eignast viðbygginguna með sama hætti og aðrar byggingar að Jaðri og mun einnig bera kostnað af rekstri hennar líkt og að öðrum mannvirkjum að Jaðri.
Viðbyggingin verður 540 m2 að stærð og verður innangengt í hana úr golfskálanum í gegnum tengibyggingu. Í viðbyggingunni verða 4 golfhermar ásamt 27 holu pútt- og vippsvæði sem er ríflega tvöfalt stærra en í núverandi aðstöðu. Einnig er gert ráð fyrir geymslusvæði í kjallara fyrir vélar og golfbíla klúbbsins. Framkvæmdir munu hefjast strax nú í haust og gert er ráð fyrir að aðstaðan verði opnuð 2024/5.
Með tilkomu viðbyggingarinnar mun íþróttastarf GA eflast til muna með auknum sveigjanleika í að nýta aðstöðu til æfinga inni og úti allt árið og opnar möguleika á að halda æfingar á Akureyri fyrir landsliðshópa. Gera má ráð fyrir að nýja aðstaðan laði að sér fleiri félaga en núverandi aðstaða í íþróttahöllinni og mun félagsstarf GA eflast við vikið. Auknir möguleikar á viðburðum af ýmsum toga fyrir félaga og aðra gesti. Golfbúðin verður opin allt árið og mun velta í veitingasölu, golfbúð og af golfhermum aukast með betri þjónustu, fjölgun golfherma og lengri opnunartíma.